Kristján Hjálmarsson hefur verið ráðinn viðskipta- og almannatengslastjóri hjá H:N Markaðssamskiptum. Kristján hefur víðtæka reynslu af fjölmiðlum en hann starfaði um þrettán ára skeið hjá 365 miðlum, þar af sjö ár sem fréttastjóri á Fréttablaðinu og eitt ár sem fréttastjóri Vísis. Áður var hann yfirmaður innblaðs- og helgarblaðs Fréttablaðsins.

H:N Markaðssamskipti er ein af elstu auglýsingastofum landsins. Stofan fékk Lúðurinn fyrir árangursríkustu auglýsingaherferðina á síðustu ÍMARK-hátíð en þetta er í fimmta sinn sem stofan hlýtur verðlaunin í þau sex skipti sem þau hafa verið veitt.

„Við erum himinlifandi að fá Kristján til starfa. Hann kemur með reynslu úr fjölmiðlaheiminum sem á eftir að nýtast H:N og viðskiptvinum okkar vel,“ segir Ingvi Jökull Logason, framkvæmdastjóri H:N, í tilkynningu.

Kristján er með BA-próf í stjórnmála- og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands. Eiginkona Kristjáns er Vera Einarsdóttir, blaðamaður á 365 miðlum og umsjónarmaður sérblaða, og eiga þau tvö börn.