*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 30. október 2020 17:03

Krónan styrktist í vikulok

Úrvalsvísitalan lækkaði síðasta dag vikunnar en öll félög utan sex lækkuðu, þar af Eik mest. Eimskip hækkaði mest.

Ritstjórn

Íslenska krónan styrktist í dag gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, mest þó gagnvart Bandaríkjadal og japönsku jeni, en myntir landanna veiktust báðar um 0,57% gagnvart krónunni.

Fór Bandaríkjadalurinn niður í 140,24 krónur, meðan japanska jenið fæst nú á 1,3398 krónur, en næst mest veiking var á svissneska frankanum, eða um 0,49%, niður í 153,15 krónur. Evran veiktist svo um 0,42%, niður í 163,76 krónur.

Eimskip hækkaði um nærri 4%

Eimskipafélag Íslands hækkaði mest í viðskiptum dagsins á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi, eða um 3,89%, í 72 milljóna króna viðskiptum, og fór gengi bréfa skipafélagsins upp í 187 krónur. Eimskip var eitt sex félaga sem hækkuðu í dag, en öll önnur lækkuðu í virði.

Þar af lækkaði gengi bréfa Eik fasteignafélags mest, eða um 1,76%, niður í 7,27 krónur í 147 milljóna króna viðskiptum. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á miðvikudag lækkaði hagnaður fasteignafélagsins um 40% á milli ára, en félagið tilkynnti einnig um kaup á húsnæði Höldur í Skeifunni og möguleg uppbyggingaráform á allt að 10 þúsund fermetra íbúðarhúsnæði á reitnum.

Úrvalsvísitalan lækkaði einnig í dag, eða um 0,40%, niður í 2.220,45 stig, í 2,7 milljarða heildarviðskiptum í kauphöllinni. Næst mest lækkun var á bréfum Haga, eða um 1,63%, niður í 54,30 krónur í 298 milljóna króna viðskiptum.

Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að Hagar hafi sett tvö félög í sinni eigu í sölu en í uppgjöri félagsins fyrir þriðja ársfjórðung sem birt var í gær að hagnaður félagsins hafi aukist um fjórðung milli ára á tímabilinu.

TM hækkar eftir að hafa hagnast um milljarð

TM hækkaði næst mest eða um 1,38%, upp í 40,4 krónur, í 127 milljóna króna viðskiptum, en félagið sneri 251 milljóna króna tapi á þriðja ársfjórðungi í fyrra í tæplega milljarðs króna hagnað á sama tíma í ár.

Hækkun bréfa Arion banka var svo sú þriðja mesta eða um 0,97%, í jafnframt næst mestu viðskiptum dagsins eða fyrir 436 milljónir króna, en gengi bréfanna endaði í 83,50 krónum.

Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Marel, eða fyrir 615,5 milljónir króna, en bréf fyrirtækisins lækkuðu í þeim um 0,85%, niður í 703 krónur, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær keyptu stjórnendur fyrirtækisins fyrir 350 milljónir króna í félaginu í gegnum kaupréttarsamninga.