Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins var viðmælandi Viðskiptablaðsins í síðustu viku. Hún segir nýsköpunarumhverfið á Íslandi hafa þroskast mjög mikið á undanförnum árum. Þannig hafi Icelandic Startups vaxið fiskur um hrygg undanfarið og Nýsköpunarmiðstöð Íslands gegni mikilvægu hlutverki.

„Tækniþróunarsjóður, Rannís og Íslandsstofa vinna líka mjög gott starf í þessu umhverfi. Það er mikið um að vera og ég myndi segja að grasrótin sé gríðarlega öflug. Þar skipta hraðlar eins og Gulleggið og Startup Reykjavík miklu máli.“ Hins vegar væri vert að skoða hvort ekki sé þörf á einhvers konar markaðssetningarhröðlum. Fyrri hluta viðtalsins við Huld má nálgast hér en viðtalið í heild í blaðinu sjálfu.

„Ef maður horfir á líftíma fyrirtækja þá er tvennt sem háir þeim. Annars vegar að þau ná ekki að skala sig upp. Það er ekki séríslenskt vandamál. Það sem er öllu erfiðara er stærð heimamarkaðarins. Hann vinnur ekki með þeim. Þá þarftu að geta farið eitthvert annað og þá þarftu að vera góður í sölu- og markaðsmálum. Það er eitthvað sem þarf að bæta á Íslandi.“ Huld segir að þarna þurfi að koma til bæði aðstoð frá hinu opinbera og einkageiranum.

„Það veltur hins vegar svolítið á því í hvaða geira þú ert. Aðgengi að mörkuðum og sölu- og markaðsmálum er mismunandi eftir því hvar menn starfa og inn á hvaða markað þeir ætla. En ég held að það sé hægt að hjálpa fyrirtækjum meira með þetta og það þyrfti að leggja meiri áherslu á þetta. Við myndum gjarnan vilja leggja okkar fyrirtækjum meira lið á þessu sviði og hjálpa þeim að finna aðila til þess í samstarfi við aðra. En þetta er klárlega samnefnari. Það er oft sagt um Ísland að við erum kunningjasamfélag þannig að þetta er menningarlegt og markaðssetning því ekki alveg okkar sterkasta hlið, á meðan við erum ofboðslega flink í framleiðslu. Í okkar menningu og í það minnsta þegar ég var að alast upp þá áttu krakkar í skólastofum ekki að tala mikið. Okkur var ekki kennt að koma fram og kynna okkur. En sem betur fer er þetta algjörlega breytt í dag. Ungt fólk sem er að koma út úr skólakerfinu er allt öðruvísi hvað þetta varðar. Þetta gæti því vel breyst með næstu kynslóðum þannig að þau verði öruggari og duglegri að koma fram. En áður fyrr þótti þetta bara frekja.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .