Stjórn Kviku banka ákvað í dag að óska eftir því við stjórn Íslandsbanka að hefja samrunaviðræður milli bankanna tveggja. Í tilkynningu til Kauphallarinnar segist stjórn Kviku vænta þess að fá afstöðu frá stjórn Íslandsbanka á næstu dögum.

Stjórn Íslandsbanka segist í tilkynningu ætla að taka erindið til umræðu í næstu viku og ákveða næstu skref af hálfu bankans.

Í tilkynningunni frá Kviku segir:

„Stjórn Kviku telur að samruni félaganna skapi fjárhagslega sterkt fjármálafyrirtæki með dreifðan tekjugrunn. Í sameinuðu félagi væri mögulegt að veita viðskiptavinum aukna þjónustu og leiða til meiri samkeppni á fjármálamarkaði, meðal annars með fjártæknilausnum, auk þess sem sameinað félag yrði áhugaverður fjárfestingakostur.“

Stjórn Kviku segir að ekki þyki ástæða að ákveða á þessari stundu hvor bankanna yrði yfirtökufélagið eða hvort og að hvaða marki dótturfélög bankanna myndu sameinast. Það færi eftir heildarmati á viðskiptalegum, skattalegum og samkeppnislegum sjónarmiðum sem myndi eiga sér stað ef formlegar viðræður hefjast.

Ríkissjóður á 42,5% hlut í Íslandsbanka en markaðsvirði Íslandsbanka er nú 234 milljarðar króna. Markaðsvirði Kviku banka er 89 milljaðrar króna og því Íslandsbanki nokkuð stærra fyrirtæki að markaðsvirði.

Eðlilegt framhald á vegferð Kviku

Kvika hefur stækkað hratt á síðustu árum meðal annars með kaupum og samruna fjármálafyrirtækja en síðasti stóri samruni félagsins var við TM og Lykil árið 2021.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, segir að ósk um samrunaviðræður við Íslandsbanka sé eðlilegt framhald á þeirri vegferð sem Kvika hefur verið á.

„Sameiningin við TM og Lykil hefur verið afar farsæl fyrir félagið og við sjáum tækifæri í því að vaxa enn frekar. Það er því spennandi fyrir Kviku að taka þetta næsta skref og kanna áhuga hjá Íslandsbanka á sameiningu. Ég vona að stjórn Íslandsbanka deili þessari sýn okkar og taki ósk okkar um viðræður vel.”