Nú í vikunni var haldin alþjóðleg jarðhitaráðstefna í San Diego í Kaliforníufylki en henni lauk í gær. Ráðstefnan er skipulögð af stærstu jarðhitasamtökunum í Bandaríkjunum og er sú fjölmennasta í iðnaðinum sem haldin er á hverju ári en búist var við að yfir 2.500 manns myndu sækja ráðstefnuna. Jarðhitateymi Íslandsbanka hefur undanfarin fimm ár sótt þessa ráðstefnu. Teymið er hluti af Fyrirtækjasviði bankans og er ábyrgt fyrir samskiptum og þjónustu við innlend og erlend jarðhitafyrirtæki, ásamt útgáfu greininga og skýrslna. Teymið mun á ráðstefnunni kynna árlegu skýrslu sína um bandaríska jarðhitamarkaðinn.

Ísland og Bandaríkin

„Jarðhitateymið hefur á undanförnum misserum einkum verið að einbeita sér að tvennu,“ segir Árni Magnússon, forstöðumaður teymisins. „Það er annars vegar að greina þá jarðhitamarkaði sem við erum fyrst og fremst að horfa til sem eru Ísland og Bandaríkin. Fyrir rúmu ári gáfum við út greiningu okkar á íslenska jarðhitamarkaðinum og síðastliðið haust greiningu á ameríska jarðhitamarkaðinum og munum nú kynna nýja greiningu okkar á ameríska markaðinum á ráðstefnunni og kaupstefnunni í San Diego.“

Árni segir að menn sjái að það eru áfram mikil tækifæri á markaðinum vestra þótt hægt hafi á honum eins og öðrum vegna ástandsins á fjármálamörkuðum. „En við sjáum samt sem áður að það eru á næstu árum mikil tækifæri. Það eru mörg verkefni í undirbúningi og okkar áætlun um fjárþörf í þau á næstu árum hljóðar upp á um 12 milljarða dala, varlega áætlað. Það sem við erum að horfa til í því efni er annars vegar ráðgjöf og svo hins vegar þegar fram í sækir og getan verður fyrir hendi að taka einhvern lítinn þátt í fjármögnun.“

Viðhalda þekkingu og samböndum

Árni segir að vissulega séu menn ekki í stakk búnir til þess að taka þátt í fjármögnun verkefna sem stendur, eðli málsins samkvæmt. Vinnan á þessu ári og í fyrra hafi í reynd snúist um það að halda í horfinu, þ.e. þekkingu, viðskiptasamböndum og vera virkir í greiningu á jarðhitamarkaðinum þannig að menn kunni hann og skilji hann. „Á alþjóðamarkaðinum er áherslan á þetta að halda sér inni myndinni og vera tilbúinn þegar menn geta. Innanlands höfum við lengi verið að vinna mjög náið með orkufyrirtækjunum og þjónustufyrirtækjunum í greininni, bæði verkfræðistofum og öðrum og höfum haldið því áfram. Við sjáum ákveðin tækifæri í samstarfsverkefnum með verkfræðistofunum en allar þær stærstu eru sem betur fer að sækja sér verkefni utan Íslands. Þar eru ákveðin tækifæri fyrir okkur og við lítum einnig á það sem þjónustu við viðskiptavini okkar að geta fylgt þeim eftir.“