*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Innlent 4. mars 2021 14:20

Landa samningi við alþjóðlegt fyrirtæki

Lausn Tactica verður hluti af vöruframboði Placewise, sem sinnir stafrænni þjónustu fyrir yfir þúsund verslunarmiðstöðva.

Ritstjórn
Fróði Jóhannesson, Ríkharður Brynjólfsson og Ingólfur Bjarni Sveinsson, eigendur Tactica við undirritun samstarfssamningsins.
Aðsend mynd

Íslenska upplýsingatæknifyrirtækið Tactica hefur undirritað samstarfssamning við alþjóðlega fyrirtækið Placewise Group sem sinnir stafrænni þjónustu fyrir yfir þúsund verslunarmiðstöðva í Evrópu, Bandaríkjunum og Suðaustur-Asíu.

Tactica ehf. er upplýsingatæknifyrirtæki stofnað árið 2012 en í dag starfa tuttugu manns hjá fyrirtækinu sem er með aðsetur á Íslandi og Úkraínu. Kjarnastarfsemi félagsins er hugbúnaðarþróun, hýsingar og kerfisrekstur. 

Integrator-lausn sem Tactica hefur þróað mun mynda hluta af vöruframboði Placewise og leika lykilhlutverk í þeirri miklu vegferð sem þau eru að leggja af stað í. Í henni fellst að gefa verslunarmiðstöðvum stafrænt andlit út á við þar sem notandinn hefur aðgengi að öllum vörum á vefnum, á auðveldara með að finna vörur hvort sem hann er heima eða á staðnum, getur pantað og fengið heimsent eða sótt í vöruafhendingu verslunarmiðstöðvarinnar, ásamt fleiri þjónustumöguleikum sem opnast neytendum.

„Samningurinn markar tímamót og er mikil viðurkenning fyrir Tactica, Integrator hugbúnaðinn og þjónustu fyrirtækisins. Við erum virkilega spennt fyrir samstarfinu sem mun veita okkur aðgang að alþjóðlegum mörkuðum í samstarfi við Placewise sem er stærsta og virtasta fyrirtækið á þessu sviði,” segir í fréttatilkynningu Tactica.

Samstarfið við Placewise snýst um að sjálfvirknivæða flæði vörugagna milli kerfa, nokkuð sambærilegt verkefni og Tactica vann með Kringlunni árið 2019. Til að gera slíkt mögulegt þarf að samþætta mörg ólík hugbúnaðarkerfi og þar er Tactica með mikla sérþekkingu og margra ára reynslu.

Integrator er veflæg samþættingarlausn og vöruumsýslukerfi sem Tactica hefur verið með í þróun og rekstri undanfarin ár. Mörg af þekktari fyrirtækjum hér innanlands hafa innleitt kerfið og eru að nýta það í samþættingu ýmissa kerfa með góðum árangri. Yfirleitt er um að ræða tengingar milli vefverslana- og fjárhagskerfa en oft á tíðum ýmissa fleiri kerfa svo sem birgða-, vöruhúsakerfa  og vörumyndabanka.

Stikkorð: Placewise Integrator Tactica