Landeigendur í Haukadal stofnuðu í gær félag um uppbyggingu Geysissvæðisins. Eigendur svæðisins ætla að ráðast í miklar framkvæmdir og fjárfestingar á svæðinu.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag en þar segir að á næstunni verði efnt til samkeppni um framtíðarskipulag svæðisins. Þá kemur einnig fram að landeigendurnir hafi látið gera þjónustukannanir á svæðinu í sumar þar sem fram hefur komið að ferðamenn hafa verið undrandi á því að ekki skuli vera gjaldtaka þar. Starfsemin á að skapa sex til tíu heilsársstörf.

„Stofnfundur Landeigendafélags Geysis ehf. var haldinn í gær. Að félaginu standa eigendur 65 prósenta hverasvæðisins í Haukadal sem ákváðu í fyrra að hefja undirbúning að því. Formaður stjórnar er Bjarni Karlsson, barnabarn Bjarna Sigurðssonar frá Geysi,“ segir í fréttinni en því er bætt við að íslenska ríkið, sem á 35 prósent af landinu, er ekki á meðal eigenda félagsins.