Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga, segir þjóðhagslegan ávinning af því að Landmælingafrumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra verði samþykkt. Frumvarpið veitir Landmælingum heimild til að safna, miðla og viðhalda landupplýsingum í mikilli nákvæmni, auk þess sem stofnuninni verður skylt að veita gjaldfrjálsan aðgang að þeim. Núverandi lög gera ráð fyrir því að Landmælingar safni ekki slíkum landupplýsingum í nákvæmari upplausn en í kvarðanum 1:50.000, en frá því árið 2013 hafa þær verið gjaldfrjálsar hjá stofnuninni.

Frumvarpið hefur verið harðlega gagnrýnt af Loftmyndum ehf. og þá hefur Viðskiptaráð skilað neikvæðri umsögn um það í ljósi þess að frumvarpið veiti Landmælingum heimild til að annast þjónustu sem einkaaðilar sinni nú þegar. Magnús segir að ekki standi til að Landmælingar fari sjálft að safna landupplýsingum, til að mynda með því að taka loftmyndir eða framkvæma mælingar. Þær upplýsingar verði áfram keyptar af einkaaðilum, en í gegnum sameiginleg útboð.

Reynsla Dana verið jákvæð

„Frumvarpið mun hafa samskonar efnahagsleg áhrif og hefur verið í Danmörku," segir Magnús. Máli sínu til stuðnings vísar hann til skýrslu sem Deloitte vann fyrir Landmælingar Danmerkur, Geodatastyrelsen, fyrir ári síðan. Í skýrslunni segir meðal annars „Áætlað er að áhrifin af því að gera landupplýsingar gjaldfrjálsar þann 1. janúar 2013 muni hafa jákvæð áhrif á þjóðarbúskapinn, sem mun leiða af sér hagvöxt og aukna hagkvæmni í opinbera geiranum." Deloitte áætlar í skýrslunni að markaðsáhrif þess að gera nákvæmar landupplýsingar gjaldfrjálsar nemi 237 milljónum danskra króna og skapi 840 störf þar í landi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .