Landsbankinn hefur hækkað breytilega óverðtryggða vexti á íbúðalánum um 0,5 prósentustig í 4,7%. Fastir óverðtryggðir vextir voru hækkaðir um 0,35 prósentustig til 3 ára og 0,25 til 5 ára á föstudag og standa nú í 5,2 og 5,4%.

Hækkunin kemur í kjölfar 0,75 prósentustiga hækkunar stýrivaxta seðlabankans í 2,75% í síðustu viku. Með þessu dregst munur fastra óverðtryggðra vaxta bankans – sem í dag eru 5,2% – og óverðtryggðra saman um helming í 0,5%.

Bílalánavextir og kjörvextir fyrirtækja hækka einnig um 0,5 prósentustig, og yfirdráttarvextir um 0,75 prósentur.

Þá hækka innlánsvextir um allt að 0,75 prósentur á óverðtryggðum sparnaðarreikningum, og vextir reikninga með fasta vexti hækka um 0,6 prósentur. Almennir veltureikningar hækka um 0,1 prósentustig.

Um fyrstu hækkun viðskiptabankanna þriggja eftir stýrivaxtahækkunina er að ræða, en mikil umræða hefur farið fram síðustu daga um bankana, hagnað þeirra og vaxtakjör. Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra kallaði meðal annars eftir því að bankarnir styddu við heimilin og greiddu niður vexti þeirra, ellegar ætti að „endurvekja bankaskattinn“, og vísaði þar til sérstaks skatts á heildarskuldir fjármálafyrirtækja, sem í dag er 0,145% en var fyrir faraldurinn 0,376%.

Uppfært 14:26: Þótt fastir óverðtryggðir vextir séu óbreyttir í dag voru þeir hækkaðir á föstudag eins og nú kemur fram í fyrstu málsgrein.