Ekki liggur fyrir hvort nýjar reglur hjá Evrópska fjárfestingarbankanum (EIB) hafi áhrif á lánveitingar til Landsvirkjunar. Bankinn greindi frá því í dag að hann hafi bætt Íslandi, Líbíu og Kambódíu á lista yfir þau lönd sem eru gjaldgeng til að fá lán hjá bankanum samkvæmt nýjum reglum sem taki gildi um mánaðamótin.

Evrópski fjárfestingarbankinn hefur lánað Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun í gegnum tíðina.

Bankinn samdi í mars siðastliðnum um að lána Landsvirkjun 70 milljónir evra, jafnvirði 11,3 milljarða íslenskra króna. Í lánasamningi voru kvaðir um að lánshæfi ríkissjóðs og Landsvirkjunar mættu ekki lækka.

Lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs í innlendri mynt voru lækkaðar í maí síðastliðnum. Það mun ekki hafa haft áhrif á lánið enda hafði Landsvirkjun þegar samið við Landsbankann um svipaða lánsfjárhæð. Ekki hefur verið dregið á lánið frá Evrópska fjárfestingarbankanum. Áhrif nýrra reglna verða skoðuð fljótlega, samkvæmt upplysingum frá Landsvirkju.

Evrópski fjárfestingarbankinn hefur yfir að ráða 25,8 milljörðum evra sem hann getur lánað áfram. Þar af er einn milljarður evra eyrnamerktur pólitískum umbótum í Miðjarðarhhafsríkjunum og tveir milljarðar í potti fyrir aðgerðir í loftslagsmálum.