Matsfyrirtækið Standard & Poor‘s (S&P) lækkaði í gær lánshæfismat Írlands en þetta er þá í annað skipti á þremur mánuðum sem fyrirtækið lækkar lánshæfismat landsins.

Í rökstuðningi S&P kemur fram að vegna erfiðleika bankakerfisins séu írsk yfirvöld undir mikilli pressu og muni að öllum líkindum ekki geta komið bönkum sínum til aðstoðar án þess að skaða efnahags landsins verulega umfram það sem þegar orðið er.

Lánshæfismat á langtímaskuldbindingum lækkaði úr AA+ niður í AA með neikvæðum horfum en í byrjun mars var matið AAA.

S&P gerir ráð fyrir að írska ríkið muni þurfa að greiða allt að 25 milljarða evra til að koma bankakerfi landsins til hjálpar en í skýrslu félagsins í mars s.l. var gert ráð fyrir 15 milljarða evra pakka til handa fjármálakerfi landsins.

Í apríl síðastliðnum lækkaði annað matsfyrirtæki, Fitch Rating lánshæfismat Írlands, úr AAA niður í AA+ með neikvæðum horfum.

En þrátt fyrir slæmar horfum á Írlandi sá greiningardeild Royal Bank of Scotland (RBS) ástæðu til að senda frá sér skýrslu í dag þar sem fjallað er um Írland og skýrt tekið fram að ekki þurfi að gera ráð fyrir efnahagshruni á Írlandi. Þá telur RBS ólíklegt að Írland muni þurfa að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins líkt og mikið hefur verið talað um. Þessa skoðun sína byggir RBS á því að Írland hafi þegar náð botninum eða sé við það að lenda á botninum og því geti leiðin ekki legið nema upp á við héðan af.

Breska blaðið Financial Times greinir frá því í dag að lækkandi lánshæfismat mun setja mikla pressu á Brian Cowan, forsætisráðherra Írlands en lögð hefur verið fram vantrauststillaga á stjórn hans í ljósi slæmrar útkomu flokks hans í sveitastjórnarkosningum á Írland, en vantrauststillagan verður tekin fyrir á þingi í dag.