Á aðalfundi hjólafyrirtækisins Lauf forks, sem haldinn var á þriðjudag, samþykktu hluthafar að heimila stjórn félagsins að sækja 500 milljónir króna í nýtt hlutafé á næstu þremur árum. Jafnframt var ákveðið að heimila 100 milljón króna lántöku með útgáfu skuldabréfa sem veita lánardrottnum rétt til að breyta kröfum sínum í hlut í félaginu.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um framleiðir Lauf forks hjólagafla og nú nýlega malarhjól sem fengið hafa góðar móttökur vegna góðrar hönnunar. GAMMA ráðgjöf hefur umsjón með fjármögnuninni, sem er fyrst og fremst ætlað að standa undir uppbyggingu innviða til þess að takast á við öran vöxt fyrirtækisins.

Aðaláherslan í starfseminni er á áframhaldandi vöruþróun og markaðssetningu í Bandaríkjunum, en þar í landi selja nú liðlega 40 verslanir malarhjólið True Grit sem Lauf setti á markað í nóvember. Að jafnaði bætist við nýr söluaðili í hverri viku. Sveinn Sölvason, fjármálastjóri Össurar, var á fundinum kjörinn nýr í stjórn félagsins.

Fleiri fréttir um Lauf forks: