Laun hækkuðu að jafnaði um 3,7% í janúar samkvæmt launavísitölu. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar . Hækkunin er að mestu leyti vegna launahækkana samkvæmt kjarasamningum sem náðu til meirihluta launafólks.

Launavísitalan hefur hækkað um 7,3% síðastliðna tólf mánuði. Á sama tíma mældist verðbólga 5,7% og því hefur kaupmáttur launa aukist um 1,6% á tímabilinu. Hagstofan birtir nýjar verðbólgutölur fyrir febrúarmánuð í lok vikunnar.

Launavísitalan hefur hækkað um 24,2% á síðastliðnum þrem árum, eða frá janúar 2019 til janúar 2022. Samningar komu til framkvæmda á ólíkum tímapunktum, en samningar á almennum vinnumarkaði komu fyrst til framkvæmda í apríl 2019 á meðan sambærilegir samningar á opinberum vinnumarkaði komu til framkvæmda á árinu 2020.