Laun á íslenskum vinnumarkaði hækkuðu um 7,4% milli áranna 2011 og 2012. Þá hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 7,8% að meðaltali en laun opinberra starfsmanna um 6,6%.

Á almennum vinnumarkaði hækkuðu laun skrifstofufólks mest á milli ára eða um 9,2% en laun iðnaðarmanna hækkuðu minnst eða um 6,7%. Á sama tímabili var hækkun launa eftir atvinnugreinum á bilinu 6,0% til 11,2%. Mest hækkuðu laun í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum en minnst í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð.

Þessar niðurstöður má finna í nýju hefti Hagtíðinda um vísitölu launa 2012. Fjallað er um vísitölu launa og gerð grein fyrir þróun hennar á árinu 2012.