Færa má rök fyrir því, að því er segir í fréttabréfi Júpíters, að heldur lítil innistæða sé fyrir miklum launahækkunum á Íslandi um þessar mundir í ljósi hagvaxtar- og launaþróunar síðastliðin fjögur ár. Í fréttabréfinu er bent á að á meðan nafnlaun hækkuðu um 23% á árunum 2009-2012 miðað við launavísitölu nam vöxtur íslenska hagkerfisins að nafnvirði rétt ríflega 13% á sama tímabili. Tekið er fram að í síðari tölunni sé miðað við að hagvöxtur á árinu 2012 hafi verið 3% og er það sagt heldur bjartsýn forsenda.

Í ljósi þessa sé áhyggjuefni í þessum efnum hvort innistæða sé fyrir hinum almennu launahækkunum sem hafa augljóslega átt sér stað á síðastliðnum fjórum árum.

Til viðbótar við þetta hefur verðbólga mælst 4-5% á ári. Því segir í fréttabréfinu að þeir sem halda um hagstjórnartaumana á Íslandi þurfi því að gæta að því að víxlverkan launa og verðlags vindi ekki meira upp á sig en þegar er orðið. Trúverðug aðkoma stjórnmálanna að úrlausnarefnum sem þessum geti oft verið hjálpleg.