*

miðvikudagur, 20. október 2021
Erlent 15. júní 2017 19:48

Lausn í sjónmáli fyrir Grikkland

Fjármálaráðherrar funduðu um skuldavanda Grikklands í Lúxemborg í dag.

Ritstjórn
epa

Fjármálaráðherrar evruríkjanna eru að leggja lokahönd á samkomulag um skuldaafléttingu á ríkisskuldum Grikklands. Verði samningurinn að raunveruleika mun hann binda enda enda á margra mánaða óvissu um hvort Grikkland geti greitt 7 milljarða evra afborgun af lánum sem fellur á gjalddaga í næsta mánuði. 

Fjármálaráðherrar evruríkjanna funduðu í Lúxemborg í dag og voru fundaraðilar bjartsýnir á að samkomulag væri í sjónmáli ef ekkert óvænt kæmi upp á. Búist er við að fundarhöld muni standa fram á nótt þar til öll smáatriði samningsins eru ljós. 

„Samningur í dag er ekki bara mögulegur heldur nauðsynlegur" sagði Pierre Moscovici efnahagsmálastjóri Evrópusambandsins í viðtali við Financial Times í dag. „Grískir ríkisborgarar og öll Evrópa mun eiga erfitt með að skilja það að samningar náist ekki"

Ef samningar nást um skuldaafléttingu Grikklands mun það að öllum líkindum þýða að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni taka þátt í aðgerðum til að bjarga grísku efnahagslífi. AGS hefur sett það sem fyrir þátttöku sinni í björgunaraðgerðunum að evruríkin veiti Grikkjum skuldaafléttingu.