Stjórn Arctica Finance leggur til að arðgreiðslur til hluthafa verði yfir því hlutfalli sem fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands (FEN) lagði til við fjármálafyrirtæki. Að mati stjórnar félagsins stendur ekkert því í vegi enda félagið hvorki kerfislega mikilvægt fyrirtæki né eining tengd almannahagsmunum. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Hagnaður Arctica á síðastliðnu ári nam tæpum 68 milljónum króna. Tekjur voru 608 milljónir og jukust talsvert frá árinu 2019 er neikvæð 218 milljóna gangvirðisbreyting verðbréfa lék það grátt. Hlutafé félagsins var hækkað um tæplega 107 milljónir króna á árinu, er 143 milljónir kóna eftir breytingu, og eigið fé félagsins var 229 milljónir í árslok.

Sem kunnugt er beindi FEN þeim tilmælum til fjármálafyrirtækja að fara varlega í arðgreiðslur síðasta vor sökum óvissu í efnahagslífinu. Í byrjun árs sendi FEN frá sér ný tilmæli þar sem fram kom að nefndin legðist ekki gegn arðgreiðslum eða kaupum á eigin bréfum á þessu ári en að félög hefðu ákveðna hluti að leiðarljósi við ákvarðanatöku þar um.

Annars vegar þyrfti afkoma að hafa verið jákvæð á rekstrarárinu og hins vegar þyrftu áætlanir að sýna fram á sterka eiginfjárstöðu næstu þrjú ár. Yrði tekin ákvörðun um arðgreiðslu var lagt til að þær, auk kaupa á eigin bréfum, næmu að hámarki fjórðungi af uppsöfnuðum hagnaði áranna 2019 og 2020 eða 0,4 prósentustiga lækkun á eiginfjárþætti 1, hvort sem lægra reynist.

Ákvörðun að vel ígrunduðu máli

Líkt og áður hefur verið nefnt hagnaðist Arctica um tæplega 68 milljónir í fyrra en tapaði aftur á móti rúmum 304 milljónum árið 2019. Þrátt fyrir það lagði stjórn félagsins til að allt að 59 milljónir yrðu greiddar í arð til hluthafa eða rétt rúmlega fjórðungur eigin fjár félagsins. Eiginfjárhlutfall félagsins, eins og það er skilgreint 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki, var 13,2% í árslok en það má ekki vera lægra en 8%.

„Tillaga stjórnar um arðgreiðslu er lögð fram að vel ígrunduðu máli,“ segir í skýrslu stjórnar. Er það mat stjórnenda að engar líkur séu á að ríkið muni grípa inn í ef til þess kæmi að það myndi riða til falls enda félagið ekki innlánsstofnun. Þá gangi tilmæli FEN lengra en yfirlýsingar Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar og Evrópska kerfisáhætturáðsins.

„Af þeim sökum, og með hliðsjón af því að um tilmæli af hálfu FEN er að ræða en ekki bindandi reglur, þá gengur tillaga stjórnar Arctica Finance hf. lengra en að takmarka arðgreiðslur félagsins við „25% af uppsöfnuðum hagnaði eftir skatta vegna áranna 2019 og 2020 eða 0,4 próstentustiga lækkunar á hlutfalli almenns eiginfjárþáttar 1, hvort sem lægra reynist“,“ segir í skýrslu stjórnar.

Breyting á fyrirkomulagi hlutafjár

Í skýrslu stjórnar er þess getið að í september í fyrra hafi fjármagnsskipan félagsins verið breytt. Útgefnir hlutir í B-, C- og D-flokki voru felldir niður með lækkun hlutafjár. Þá voru 435 milljónir greiddar í arð til hluthafa í A-flokki. B-, C- og D-bréfin höfðu ekki veitt atkvæðisrétt í félaginu en veitt vissan forgang til arðs. Áður hafði FME byggt á því að hlutirnir hefðu verið liður í að klæða kaupauka í búning arðgreiðslna og gert félaginu sekt vegna þessa. Sú sekt var staðfest í Landsrétti fyrir jól.

Að því búnu voru gefnir út nýir hlutir sem skiptust niður á A- og B- flokk. 35,5 milljón hluta var gefin út í fyrri flokknum en 71,5 milljón hlutir í þeim síðari. Hluthafar greiddu samtals tæpar 116 milljónir fyrir þá. B-bréfin eru án atkvæðisréttar en þess er ekki getið hvort þeir hafi að geyma forgang til arðgreiðslna. B-bréfin eru öll í eigu félaga í eigu starfsmanna eða þá beinni eigu þeirra.