Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegráðherra, kynnti drög að frumvarpi um nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi og álagningu veiðigjalda á fundi með þingmönnum beggja stjórnarflokkanna í gær. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Þar kemur fram að frumvarpsdrögin grundvallist á niðurstöðu sáttanefndarinnar svonefndu sem skilaði áliti fyrir fjórum árum. Leið nefndarinnar byggist á kvótakerfinu, en þó þannig að horfið verði frá úthlutun aflaheimilda með núverandi fyrirkomulagi og þess í stað verði teknir upp nýtingarsamningar við útgerðarfyrirtæki til tiltekings árafjölda.

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, staðfestir í samtali við Morgunblaðið að sáttaleiðin sé grundvöllurinn en segist þó ekki geta greint frá einstökum efnisatriðum. „Það verður að búa til rekstrarumhverfi þannig að bankar og lánastofnanir séu tilbúnar til að lána fyrirtækjum í greininni til uppbyggingar.“