Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu var 145,9 stig í janúar 2016 og lækkar um 2,1% frá fyrri mánuði. Miðað er við upphaf vísitölunnar í janúar 2011 þar sem hún var 100 stig.  Síðastliðna 3 mánuði lækkaði vísitalan um 0,4% og síðastliðna 12 mánuði hækkaði hún um 4,7%. Þetta kemur fram í frétt Þjóðskrár um vísitölu leiguverðs.

Meðalleiguverð á fermetra stúdíóíbúðar í Reykjavík vestan við Kringlumýrarbraut og Seltjarnarnes er þá 2865 krónur í janúar árið 2016.  Af þessu má leiða grófan útreikning á því að 60 fermetra stúdíóíbúð á þessu svæði sem væri leigð á þessu meðalverði myndi þá kosta um 171.900 krónur að leigja á hverjum mánuði.

Strax verður munur á meðalleiguverðinu þegar komið er út fyrir þessi tilteknu svæði. Í Reykjavík milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar er meðalverðið um 590 krónum lægra. Meðalleiguverð á fermetra er tæplega þúsund krónum ódýrara þegar komið er til Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs. Birting vísitölunnar er ætlað að varpa ljósi á þróun leiguverðs samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir á hverjum tíma.