*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Innlent 27. október 2021 11:29

Ís­lenskir mennta­sprotar vekja at­hygli

Atlas Primer, Mussila og Kara Connect voru valin á lista yfir mest lofandi sprotafyrirtæki í menntatækni.

Hinrik Jósafat Atlason, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Jón Gunnar Þórðarson.

Þrjú íslensk fyrirtæki eru meðal fimmtíu mest lofandi sprotafyrirtækjum í menntatækni á Norður- og Eystrasaltslöndunum, samkvæmt lista sem tekinn var saman af Holon IQ. Íslensku fyrirtækin sem um ræðir eru Atlas Primer, Mussila og Kara Connect.

Á vefsíðu Holon IQ segir að markaðssérfræðingar hafi alls greint yfir 1.500 sprotafyrirtæki fyrir listann sem er gefinn út árlega. Einkunnagjöfin byggir á fjármögnun, starfsfólki, vörum og þeirra markaði sem þær ná til ásamt meðbyr sem er skilgreindur út frá vexti og áhrifum fyrirtækisins.

Atlas Primer býr til kennsluforrit sem byggt er á gervigreind. Forritið er ætlað að vera eins konar einkakennari og sérstaklega hugsað fyrir nemendur sem eiga í erfiðleikum með hefðbundið nám, m.a. þá sem stríða við námsörðugleika á borð við lesblindu. „Maður verður óneitanlega stoltur af slíkri viðurkenningu og alveg ljóst að nú er mikil gróska í íslenskri menntatækni,“ segir Hinrik Jósafat Atlason, stofnandi og forstjóri Atlas Primer.

Kara Connect er hugbúnaðarfyrirtæki sem rekur nokkurs konar markaðstorg þar sem sérfræðingar á borð við sálfræðinga og talmeinafræðinga geta tengst skjólstæðingum með auðveldum og skjótum hætti á netinu. Í desember síðastliðnum tilkynnti mennta- og menningarmálaráðuneytið um samning við Köru sem felst í að veita sjö framhaldsskólum aðgang að stafrænni lausn sem tengir nemendur við sérfræðinga í gegnum öruggt vefsvæði. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri Köru connect.

Mussila gefur út tónlistarapp sem er komið á heimsmarkað á 32 tungumálum. Þegar félagið réðst í 150 milljóna króna fjármögnun á vettvangnum Funderbeam í mars síðastliðnum kom fram að um 20 þúsund notendur hali appinu niður í hverjum mánuði. Fjöldi mánaðarlegra áskrifta fjórfaldaðist árið 2020 og tekjurnar af sölu appsins sjöfölduðust. Jón Gunnar Þórðarson er framkvæmdastjóri Mussila.

Hér má sjá yfirlit yfir fyrirtækin fimmtíu sem voru valin á listann. Myndin er tekin af heimasíðu Holon IQ.