Enrico Letta, forsætisráðherra Ítalíu, rær að því öllum árum að halda ríkisstjórn landsins saman eftir að fimm stjórnarþingmenn úr Frelsisflokknum, stjórnmálaflokki Silvio Berlusconis fyrrverandi forsætisráðherra, lýstu því yfir um helgina að þeir styddu ekki lengur ríkisstjórnarsamstarfið. Þingmennirnir settu sig upp á móti hækkun söluskatts sem er liður ríkisstjórnarinnar í því að draga úr skuldum hins opinbera. Þá spilar inn í að nefnd í efri deild ítalska þingsins hefur samþykkt að svipta Berlusconi þingsæti vegna hneykslis- og dómsmála sem hann tengist.

Sjálfur hrökklaðist Berlusconi frá völdum í nóvember árið 2011, m.a. eftir að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hundskammaði hann fyrir óstjórn í ríkisfjármálum.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir Letta hafa boðað til atkvæðagreiðslu á miðvikudag til að skera úr um hvort stjórnin njóti trausts.

Aðalvísitala hlutabréfa í kauphöllinni á Ítalíu hefur fallið um tvö prósent vegna þessa óróa á ítalska þinginu og hækkaði álag á ítölsk ríkisskuldabréf eftir að þingmennirnir sögðu af sér. Ítalir þurfa nú að greiða 4,66% álag ný lán sem stjórnvöld þurfa að taka til að standa við skuldbindingar sínar.