Umfang skuldabréfa með ríkisábyrgð í eignasöfnum lífeyrissjóðanna jókst mjög eftir bankahrun. Á árunum 2004-2007 var þetta hlutfall í kringum 15% af heildareignum, en vigt þessara eignaflokka jókst verulega í hruninu. Var það bæði vegna þess að virði þeirra jókst að nafnvirði, en ekki síður vegna þess að heildareignir sjóðanna minnkuðu verulega í hruninu með algeru hruni íslenska bankakerfisins og hlutabréfamarkaðarins.

Í árslok 2011 voru skuldabréf ríkis, sveitarfélaga og Íbúðalánasjóðs 38,3% af heildareignum lífeyrissjóðanna en hlutfallið hefur lækkað eitthvað frá þeim tíma og var um síðustu áramót 35,9%. Það er samt nálægt því að vera þrefalt hærra hlutfall en það var fyrir hrun. Þá hefur þessi eignaflokkur ekki minnkað að nafnvirði frá árinu 2011. Eign lífeyrissjóðanna í skuldabréfum af þessu tagi nam 807,8 milljörðum króna í árslok 2011 en var 960,9 milljarðar um síðustuáramót.

Þetta hefur verið talinn galli, því grunnhugmyndin við stofnun íslenska lífeyrissjóðakerfisins með skyldusparnaði og sjóðsöfnun var sú að sjóðirnir skyldu sjálfir ávaxta lífeyrissparnað landsmanna í stað þess að ríkið bæri kostnað og ábyrgð af lífeyrisgreiðslum. Þegar svo stór hluti fjárfestinga lífeyrissjóðanna er í opinberum skuldabréfum og ávöxtun þeirra vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru mörkin milli sjóðsöfnunar- og gegnumstreymiskerfis farin að verða óljós.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .