Talsverð kröfuhækkun var á skuldabréfamarkaði í gær. Greiningardeild Íslandsbanka fjallar um málið í morgunkornum í dag og segir rót hreyfingar á skuldabréfamarkaði augljóslega liggja í þeirri breytingu á gjaldeyrislögum sem samþykkt var aðfaranótt þriðjudags.

Í morgunkornum kemur fram að áhrifin hafi verið sterkari í gær en í fyrradag sem sjá megi í meiri kröfubreytingu. Að RIKB12 undanskildum var í raun kröfuhækkun á öllum flokkum skuldabréfa. Mest var kröfuhækkunin á verðtryggða hlutanum og hækkaði krafan á íbúðabréfaflokkunum um 11-34 punkta, þá mest á HFF24.

Krafa í verðtryggða ríkisbréfaflokkinum RIKS21 hækkaði um 25 punkta í gær og fór yfir 2,0% í lok dags. Hærri hefur hún ekki verið það sem af er ári. Einnig mátti gæta kröfuhækkana á óverðtryggða hluta markaðarins þó áhrifin þar hafi verið mun minni. Mest var hækkunin á óverðtryggðu ríkisbréfaflokkunum sem eru með gjalddaga 2019 eða síðar, eða um 11-12 punkta, og gekk þar með sú kröfulækkun sem átti sér stað deginum áður að öllu leyti til baka.

Það sem af er degi hefur verið fremur rólegt á skuldabréfamarkaði, og hafa flestir flokkar verðtryggðra jafnt sem óverðtryggðra markflokka verið keyptir.