Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að sér finnist það líklegra en hitt að Íslendingar eigi eftir að sækja um aðild að Evrópusambandinu á næsta ári.

„Það er ekki hægt að segja nákvæmlega hvað landsfundur [Sjálfstæðisflokksins] gerir, en mér finnst líklegra en hitt að við förum í það að sækja um aðild að ESB og förum í það ferli að semja um okkar hagsmuni."

Þetta kom fram í máli Þorgerðar Katrínar í þættinum Markaðnum á Stöð 2 í morgun.

Hún sagði að ef landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti aðild að ESB yrði gefin út yfirlýsing um slíkt af hálfu ríkisstjórnarinnar í febrúar eða mars.

Hún kvaðst sannfærð um að slík yfirlýsing myndi gefa út þau skilaboð til alþjóðasamfélagsins „að við værum að taka okkar mál föstum tökum og ekki síst peningamálin."