Þann 22. desember síðastliðinn úrskurðaði YSKN (úrskurður nr.215/2021) í máli er laut að sömu sölu rafmynta og fyrrnefndur úrskurður. Í málinu var ekki deilt um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að fara með tekjur af sölu á rafmynt sem hagnað af sölu ófyrnanlegs lausafjár, annars en hlutabréfa og eignarhluta í samlögum og sameignarfélögum, en engu að síður þótti nefndinni tilefni til að víkja að skattlagningargrundvelli í málinu .

Umrætt mál sneri að því að ríkisskattstjóri færði einstaklingi, sem er kærandi í málinu, greiðslur vegna sölu á rafmyntinni Bitcoin á árinu 2016 til skattskyldra tekna í skattaframtali árið 2017, þannig að stofn til fjármagnstekjuskatts hækkaði um rúmar 27 milljónir króna. Deilt var um hvort kærandi hefði aflað rafmyntarinnar í hagnaðarskyni og þar af leiðandi hvort undanþáguregla í tekjuskattslögum ætti við.

Rafmyntagröftur væri tómstundagaman

Kærandi hélt því fram að hann hefði aflað rafmyntarinnar með greftri í tómstundum sínum á árunum 2009 og 2010, þegar myntin hafði ekkert verðgildi, með því að leysa stærðfræðiþraut þar sem hann hafi verið forvitinn um hvort honum tækist að afla rafmyntarinnar. Myntarinnar hafi þannig ekki verið aflað í hagnaðartilgangi.

Ríkisskattstjóri gerði aftur á móti grein fyrir því viðhorfi sínu að öflun rafmyntarinnar félli ekki undir undantekningarregluna þar sem hana bæri að skýra þröngt samkvæmt lögskýringarreglum. Var það mat embættisins að kærandi hefði aflað rafmyntarinnar í hagnaðarskyni og að hagnaður af sölu hennar væri því skattskyldur.

Ákvörðun embættisins byggði meðal annars á niðurstöðum í rannsóknarskýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins frá 12. desember 2019. Í ítarskjali með skýrslunni kemur fram að við mat á því hvort rafmyntar sé aflað í hagnaðarskyni sé meðal annars litið til gerðar hennar, þeirra nota sem kærandi hafi haft af henni á eignarhaldstímanum og aðstæðum við öflun og sölu hennar. Er þar vísað til þess að notagildi myntarinnar sé takmarkað og að öflun hennar megi að einhverju leyti líkja við öflun gullstanga. Þótti það benda til þess að rafmyntarinnar hefði verið aflað í hagnaðarskyni.

Öflun verið í hagnaðarskyni frá öndverðu

Í úrskurði YSKN segir að Bitcoin rafmyntin hafi gengið kaupum og sölum manna á milli frá því að hún var sett á fót og að verð í viðskiptum hafi í fyrstu verið ákvarðað á grundvelli framboðs og eftirspurnar í umræðuhópum á netinu. Miklar sveiflur hafi verið á gengi rafmyntarinnar í gegnum tíðina.

Var það mat YSKN að samkvæmt því hefði rafmyntin alla tíð haft eitthvert verðgildi og yrði að telja sem svo að frá upphafi hafi legið fyrir að fjárfesting eða gröftur eftir Bitcoin gæti skilað hagnaði. Þar af leiðandi yrði að ætla að allar líkur standi til að öflun rafmyntarinnar, hvort heldur með kaupum eða greftri, sé almennt í hagnaðarskyni og að svo hafi verið frá öndverðu.

Taldi nefndin kæranda ekki hafa sýnt fram á að rafmyntarinnar hafi ekki verið aflað í hagnaðarskyni þannig að undantekningarreglan ætti við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .