Að meðaltali voru tvö viðskipti á dag á gjaldeyrismarkaði í apríl og ein á millibankamarkaði. Gengi krónunnar breyttist nær ekkert á milli mánaða í veltu upp á 36 milljónir evra eða 5,6 milljarða króna. Hagfræðideild Landsbankans bendir á það í Hagsjá sinni að veltan sé í minni kantinum og þurfi að fara allt aftur í apríl árið 2012 eða um tvö ár til að sjá veltu undir 40 milljónum evra á mánuði.

Fram kemur í Hagsjánni að af 17 viðskiptadögum voru níu þar sem a.m.k. ein viðskipti áttu sér stað en átta þar sem engin viðskipti fóru fram.

Bent er á að Seðlabankinn hélt sér að mestu til hlés í mánuðinum en hann keypti þrjár milljónir evra á tímabilinu.