Knattspyrnuliðið Liverpool FC tapaði þrátt fyrir mikla tekjuaukningu á liðnu tímabili. Tap liðsins nam 19,8 milljónum punda fyrir skatta, fyrir tímabilið 2015 til 2016. Tapið tengist kaupum á leikmönnum fyrir háar fjárhæðir og starfslokasamning sem Brendan Rodgers hlaut þegar honum var sagt upp. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Liverpool keypti 12 leikmenn á tímabilinu og eyddi liðið til að mynda 32 milljónum punda fyrir Christian Benteke, sem hefur nú verið seldur áfram. Einnig borgaði liðið 29 milljónir punda fyrir brasilíska leikmanninn Roberto Firmino.

Liverpool hagnaðist hins vegar um 60 milljónir árið 2014 til 2015, en var hagnaðurinn aðallega tengdur sölu liðsins á Luis Suarez á 75 milljónir punda til Barcelona. Liðið fékk einnig 49 milljónir punda fyrir Raheem Sterling sem var seldur til Manchester City.