Á liðnum mánuðum hefur því verið spáð, að þegar olíuverð tæki að lækka, þá myndi það lækka nálægt einum dollar á mánuði þar til kemur að því jafnvægi, sem olíuframleiðsluríkin ætla sér að halda verðinu í, sem er á bilinu 22 - 28 dollarar á tunnu. Að sögn Magnúsar Ásgeirssonar, innkaupastjóra eldsneytis hjá Olíufélaginu, er mjög líklegt að þessi þróun eigi sér stað á næstu mánuðum.

"Fyrir um það bil mánuði var verðið um 42 dollarar, en er komið niður í 33 - 34 dollara, sem er umtalsverð lækkun, en aðrar tegundir hafa þó ekki enn fylgt hlutfallslega jafn mikið eftir. Ef spár ganga eftir bentir flest til þess að olíuverð muni lækka um einn dollar á mánuði út þetta ár og gæti verið komið niður í 27 - 28 dollara í árslok. Það sem vegur hins vegar á móti þessarri lækkun er sú staðreynd, að sumar olíuframleiðsluþjóðir vilja alls ekki að verðið fari niður fyrir 30 dollara á tunnu og gætu brugðist við með niðurskurði olíuframleiðslu á ný. Líkur á því eru taldar frekar litlar eins og mál standa núna og OPEC-ríkin eru talin frekar vilja hafa ábyrga afstöðu og tryggja nægilegt framboð af olíu inn á markaðinn til að byggja upp birgðir og tryggja nægilegt framboð svo jafnvægi við eftirspurn komist í eðlilegt horf. Viðsjár eru þó miklar í alþjóðamálum og hvers konar órói og ófriður er snöggur að hafa áhrif ef illa fer," sagði Magnús í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.