,,Stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir núna er vaxtastigið. Þetta gengur ekki og það verður að ná því niður með öllum tiltækum ráðum, það er forgangsverkefni. Hjól atvinnulífsins snúast ekki á þessu vaxtastigi," sagði Jón Steindór Valdimarsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins í samtali við vb.is.

,,Vitaskuld skapa gjaldeyrishöft og jöklabréf mikinn vanda en við höfum lagt á það áherslu að við eigum ekki að þurfa að hafa hvoru tveggja, hömlur og himinnháa vexti. Af tvennu illu þá viljum við lækka vextina því það getur engin lifað við þetta vaxtastig."