Samkvæmt rannsókn sem gerð var á atvinnuleysi í Bretlandi með tilliti til ólíkrar menntunar eru tannlæknar og læknar líklegastir til að þurfa engar áhyggjur að hafa af atvinnumálum sínum, á meðan einn af hverjum tíu tölvufræðingum gengur atvinnulaus. Lista- og hönnunarnemar fylgja fast á hæla tölvunarfræðinga, en dýralæknar og uppeldis- og kennslufræðingar eru nokkuð öruggir.

Samkvæmt rannsókninni, sem var framkvæmd af Higher Education Statistics Agency (HESA), finna hins vegar fleiri nýútskrifaðir háskólanemar vinnu en áður. Atvinnuleysi í þeirra hópi fer niður úr 6,1% veturinn 2005-2006 og í 5,6% veturinn 2006-2007. Rannsóknin kannaði atvinnuleysi hjá einstaklingum sem útskrifast höfðu úr námi á síðustu sex mánuðum.

Rannsóknin sýndi jafnframt að það borgar sig að ná góðum einkunnum, því líkur á að finna starf við hæfi voru meiri eftir því sem einkunnir voru hærri. Í frétt Guardian er haft eftir Bill Rammell, ráðherra háskólamála, að hann telji tölurnar til marks um að atvinnulífið kunni sífellt betur að meta langskólagengna starfskrafta.