Elon Musk tók umhugsunarlaust ákvörðun að tísta á Twitter að hann hefði tryggt sér fjármögnun á yfirtöku á Tesla árið 2018 eftir að hafa lesið grein í Financial Times.

Þetta sagði lögfræðingur Musk fyrir rétti í San Francisco í gær. Financial Times greinir frá þessu.

Alex Spiro, lögfræðingur Musk og Tesla, sagði að eftir að Musk las fréttina hafi hann sest upp í bíl sem ók honum út á flugvöll. Hann hafi skrifað tístið í bílnum.

Fréttin snerist um að fjárfestingasjóður Sádí Arabíu hefði eignast 2 milljarða Bandaríkjadala hlut í rafbílaframleiðandanum.

Alex Spiro lögmaður Musk mætir í dómshúsið í San Fransisco í gær.
© epa (epa)

Nokkrum dögum áður hafði Musk hitt fulltrúa fjárfestingasjóðinn með það að markmiði að taka Tesla yfir ásamt sjóðnum. Musk hafi talið nauðsynlegt að tvíta um málið því hann óttaðist að upplýsingar um viðræðurnar við sjóðinn myndu brátt leka út. Þar sem Musk hafi skrifað tvítið í flýti hafi hann orðað það illa.

Réttarhöldin hófust í gær en hluthafar í Teslu stefndu Musk vegna ummælanna.

„Ég er að hugsa um að taka Tesla yfir á 420 dali hlutinn. Fjármögnun tryggð

Á frummálinu: „Am considering taking Tesla private at $420. Funding secured.”

Hlutabréf Tesla ruku upp í verði við tilkynninguna en 420 dalir á hlutinn hefðu þýtt 20% yfirverð miðað við markaðsverðið þegar Musk birti tvítið. Ekki varð af yfirtökunni og hluthafarnir telja sig hafa tapa' milljörðum Bandaríkjadala.

Yfirlýsing Musk um að fjármögnun hafi verið tryggð eru að mati hluthafanna „samhengislaus, ófullnægjandi og blekking". Hluthafarnir krefjast bóta vegna meint skaða af orðum Musk.