Miklar sviptingar eru í kringum eignarhaldið á Arion banka um þessar mundir. Íslenska ríkið er farið úr hluthafahópi Arion banka og stefnt er að tvískráningu bankans á markað á Íslandi og í Svíþjóð í vor.

Íslenska ríkið eignaðist um 75% af bankakerfinu að loknum slitameðferðum gömlu bankanna og í kjölfar staðfestingar á nauðasamningum slitabúanna árið 2015. Um nokkurt skeið hefur það verið stefna ríkisins að selja bankana og hófst einkavæðing bankanna hin síðari í mars á síðasta ári, tæplega áratug eftir bankahrun. Fyrstur til að ríða á vaðið var Arion banki, sá banki sem íslenska ríkið átti smæstan hlut í.

Vogunarsjóðir snúa aftur

Nokkrum dögum eftir afnám fjármagnshafta keyptu erlendir fjárfestar tæplega þriðjungshlut í Arion banka. Fjárfestingabankinn Goldman Sachs og þrír erlendir vogunarsjóðir – Taconic Capital, Attestor Capital og Och-Ziff Management – keyptu þá nærri 30% hlut í Arion banka í gegnum verðbréfasjóði fyrir 48,8 milljarða í lokuðu útboði. Miðað við þau kaup var bankinn í heild metinn á rúmlega 166 milljarða eða um 80% af bókfærðu eigin fé bankans.

Hlutinn keyptu sjóðirnir af Kaupskilum, dótturfélagi Kaupþings, en fyrir kaupin áttu Kaupskil 87% hlut í Arion en Bankasýsla ríkisins, fyrir hönd ríkissjóðs, átti 13%. Jafnframt fengu sjóðirnir kauprétt á 21,9% af hlutafé Arion til viðbótar. Vogunarsjóðirnir þrír eru allir kröfuhafar í Kaupþingi og höfðu því verið óbeinir hluthafar í Arion um árabil fyrir kaupin.

Viðræður um möguleg kaup íslenskra lífeyrissjóða á hlut Kaupþings í Arion banka höfðu staðið yfir með mislöngum hléum í nokkra mánuði fyrir söluna. Almennt hlutafjárútboð bankans var fyrirhugað í apríl samhliða tvískráningu á Íslandi og í Svíþjóð, en frestaðist vegna sölunnar. Skráning Arion banka frestaðist enn og aftur vegna stjórnarslita og alþingiskosninga á síðasta ári.

Viðræður við lífeyrissjóði héldu áfram, sem og við tryggingafélög, en runnu út í sandinn. Ágreiningur var um verð, tímaþröng fyrir birtingu uppgjörs fyrir árið 2017, óvissu um skráningu bankans á markað og skort á skýrri sýn á framtíðarrekstri bankans.

Um miðjan febrúar síðastliðinn keyptu innlendir og erlendir sjóðir 5,34% af hlutafé Arion banka fyrir 9,5 milljarða. Innlendu sjóðirnir voru 24 sjóðir í stýringu fjögurra sjóðastýringarfyrirtækja – Stefnis, Íslandssjóða, Landsbréfa og Júpíter – og keyptu 2,54% hlut. Þá bættu Attestor Capital og Goldman Sachs við hlutabréfaeign sína í bankanum og keyptu 2,8% hlut. Á sama tíma keypti Arion banki 9,5% hlut af Kaupskilum fyrir 17,1 milljarð.

Þar með virkjuðust 25 milljarða króna arðgreiðslur til hluthafa Arion banka, sem samþykktar voru á hluthafafundi tveimur dögum áður. Arðgreiðslan var skilyrt við að Kaupþingi tækist að selja minnst 2% hlut í bankanum fyrir 15. apríl næstkomandi. Kaup Arion á eigin bréfum komu til frádráttar á fjárhæð arðgreiðslnanna. Hlutur Kaupskila í arðgreiðslunni og hluti af söluandvirði hlutafjárins í bankanum – alls 7,7 milljarðar – runnu til íslenska ríkisins sem stöðugleikaframlag. Arðgreiðslan og kaupin á eigin bréfum eru í samræmi við langtímamarkmið Arion banka um að minnka umfram eigið fé bankans.

Samhliða þessari sölu Kaupskila á hlutum í Arion banka barst Bankasýslu ríkisins tilkynning frá Kaupskilum um nýtingu félagsins á kauprétti á 13% hlut ríkisins í Arion banka. Kauprétturinn var í samræmi við ákvæði hluthafasamkomulags Arion banka, Kaupskila og ríkisstjórnarinnar frá árinu 2009. Kaupin gengu í gegn undir lok febrúar og fékk íslenska ríkið 23,5 milljarða fyrir hlutinn. Alls fékk ríkið ríflega 31 milljarð króna vegna viðskipta með hlutabréf í Arion banka og arðgreiðslunnar í síðasta mánuði.

Í lok febrúar áttu Kaupskil 55,57% eignarhlut í Arion banka. Þá áttu fjórir sjóðir í stýringu erlendra vogunarsjóða og fjárfestingabankans Goldman Sachs alls 32,38% hlut (Attestor Capital 12,44%, Taconic Capital 9,99%, Och-Ziff Capital Management 6,58% og Goldman Sachs International 3,37%). Arion banki á 9,5% hlut. Þá eiga innlendir fjárfestingarsjóðir 2,54% hlut, en eignarhlutur hvers sjóðs er undir 1%. Ekki er vitað hvaða fjárfestar standa á bak við erlendu vogunarsjóðina og íslensku sjóðina.

Nú er unnið að sölu á hlut Kaupþings í Arion banka í gegnum útboð og skráningu. Stefnt er að tvískráningu bankans á markað í Kauphöll Íslands og í Kauphöllinni í Svíþjóð í vor.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins hleypur kostnaður Kaupþings við söluferlið á hlut sínum í Arion, svo sem vegna ráðgjafar og verðlagningar, á milljörðum króna.

Liggur á að selja

Það liggur á að klára sölu á eignarhlut Kaupþings í Arion. Bankinn var reistur á innlendri starfsemi gamla Kaupþings og voru helstu verðmæti Arion því í eigu gömlu bankanna og þar með kröfuhafa í bú þeirra. Kaupþing þarf að selja Arion banka til að endurgreiða fé sem félagið skuldar ríkinu og gera kröfuhöfum sínum kleift að innleysa eignir sínar hér á landi. Einnig er tímapressa á Kaupþingi frá Fjármálaeftirlitinu, einkum vegna beinna og óbeinna umsvifa Taconic Capital í Arion banka.

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .