Jack Ma, stofnandi Alibaba og Alipay, hefur búið í miðborg Tókýó í nærri sex mánuði, að því er Financial Times greinir frá. Ma, sem er einn þekktasti viðskiptamaður Kína hvarf nær alfarið úr sviðsljósinu fyrir rúmum tveimur árum eftir að hann gagnrýndi eftirlitsaðila í Kína.

Heimildarmenn FT segja að á yfir nokkurra mánaða dvöl Ma í Japan hafi hann m.a. dvalið með fjölskyldu sinni á skíðahótelum og hótelum nálægt hverasvæðum fyrir utan Tókýó. Með honum í Japan er einkakokkur og öryggisteymi. Þá hafi Ma ferðast reglulega til Bandaríkjanna og Ísrael.

Sést hefur til Ma af og til á síðastliðnum tveimur árum, þar á meðal á Spáni og í Hollandi. Heimildarmenn FT segja að hann láti lítið á sér bera.

Vantslitsmálun og sjálfbærniverkefni

Vinir Ma í Kína segja að auðjöfurinn hafi snúið sér að vatnslitamálun eftir að hann gat ekki haldið áfram sínum opinbera lífstíl. Aðrir segja að Ma hafi nýtt tíma sinn í Japan til að víkka út fjárfestingar sínar umfram netviðskipti og fjártækni og að hann horfi nú til sjálfbærniverkefna.

Fjölmiðlar fóru að veita því athygli í byrjun síðasta árs að ekki hafði sést opinberlega til Jack Ma, stofnenda netverslunarinnar Alibaba, í nokkra mánuði, ekki einu sinni í eigin raunveruleikaþætti. Margir óttuðust að Ma yrði fyrir sömu örlögum og fyrri gagnrýnendur kínverska ríkisins sem hurfu skyndilega úr sviðsljósinu.

Kínversk stjórnvöld komu í veg fyrir frumútboð Ant Group, móðurfélag Alipay, í nóvember 2020 en útboðið stefndi í að verða það stærsta í sögunni. Nokkrum dögum áður hafði Ma gagnrýnt eftirlitsstofnanir og ríkisrekna banka í ræðu sem féll ekki vel í kramið hjá kínverskra stjórnvalda sem lýstu þó fjármálastöðugleika sem meginástæðu ákvörðunarinnar að koma í veg fyrir útboðið.

Ant Group og Alibaba hafa síðan bæði glímt við miklar hindranir hjá eftirlitsaðilum. Þá var Alibaba sektað um 2,8 milljarða dala vegna brota á samkeppnislögum í fyrra.