Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingmaður og þingflokksformaður Samfylkingarinnar, er genginn til liðs við Capacent ráðgjöf, sem sérhæfir sig í stefnumótun fyrirtækja, og stjórnenda-, sölu- og markaðsráðgjöf. Hann var í þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi í síðustu Alþingiskosningum.

Fram kemur í tilkynningu frá Capacent að Magnús Orri lauk BA prófi í sagnfræði frá HÍ 1996 og MBA prófi frá HR 2003. Hann starfaði sem íþróttafréttamaður, framkvæmdarstjóri hjá KR, verkefnastjóri hjá Símanum, og um síðustu aldamót stofnaði hann og rak Birtu Vefauglýsingar sem var brautryðjandi á sviði netauglýsinga á Íslandi.

Magnús stundaði doktorsnám og kennslu í nýsköpun, greiningu viðskiptatækifæra og stofnun fyrirtækja hjá Viðskiptadeild HR. Magnús var um nokkurra ára skeið sölu- og markaðsstjóri erlendis hjá Bláa Lóninu áður en hann settist á Alþingi vorið 2009. Á síðasta kjörtímabili var Magnús varaformaður viðskiptanefndar, varaformaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, ásamt því að gegna starfi þingflokksformanns Samfylkingarinnar árið 2012.

Þá skrifaði Magnús Orri bókin „Við stöndum á tímamótum“ sem kom út í fyrrahaust. B´koin fjallar m.a. um það hvernig mætti styrkja verðmætasköpun og uppbyggingu íslensks atvinnulífs að loknu hruni.

Magnús Orri er kvæntur Herdísi Hallmarsdóttur hæstaréttarlögmanni og eiga þau tvö börn.