Magnús Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður Eimskipafélagsins, hefur stefnt Gunnari Erni Jónssyni, fréttamanni Stöðvar 2, vegna friðarbrota og fer fram á að honum verði refsað vegna meiðyrða og að ummæli hans um Magnús verði ómerkt. Um leið fer Magnús fram á miskabætur, kostnað vegna birtingar á dómi og greiðslu málskostnaðar. Magnús bætist þar með í hóp manna sem hafa stefnt út af þessari frétt.

Í stefnu eru gerðar þær dómkröfur að Gunnar Örn verði dæmdur til refsingar. Einnig er gerð krafa um að ummæli úr fréttatíma Stöðvar 2 mánudaginn 27. júlí sl. verði dæmd dauð og ómerk hvað varðar stefnanda. Í frétt Stöðvar 2 á þessum degi sagði að Magnús Þorsteinsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson hefðu millifært milljarða króna úr Straumi yfir í erlend skattaskjól á sama tíma og tilkynnt var um þjóðnýtingu Glitnis. Síðar í sömu frétt var sagt að hátt í eitt hundrað reikningar hefðu verið stofnaðir í erlendum skattaskjólum á að minnsta kosti tveimur vikunum eftir þjóðnýtingu Glitnis. Sagt var að Björgólfsfeðgar, Magnús Þorsteinsson og Karl Wernersson hefðu verið umsvifamiklir í þessum fjármagnsflutningum.

Einnig er krafist ómerkingar á ummælum um Magnús á Stöð 2 sem flutt var daginn eftir eða 28. júlí en þá var fréttin endurflutt með litlum breytingum.  Þar sagði að sama dag og tilkynnt var að íslenska ríkið hefði eignast 75% í Glitni hófust millifærslur á peningum frá Straumi yfir á reikninga á fjölmörgum skattaskjólseyjum. Þar segir að hátt í hundrað reikningar hafi verið stofnaðir á skattaskjólseyjum hátt í tveimur vikum eftir þjóðnýtingu Glitnis. Umræddar skattaskjólseyjar eru meðal annars Cayman, Tortóla og Jómfrúareyjarnar og Bermúda og Lúxemborg. Þar segði að Magnús hefði tekið þátt í fjármagnsflutningunum til þessara eyja.

Fer fram á milljón í miskabætur

Magnús gerir þá kröfur að stefndi greiði honum eina milljón króna í miskabætur ásamt dráttarvöxtum. Þá er krafist 250 þúsund króna til birtingar á dómnum auk þess sem krafist er greiðslu málskostnaðar.

Í stefnu kemur fram að Magnús telur efni fréttanna verulega meiðandi hvað hann varðar enda sé fréttin sett fram með þeim hætti að dróttað er að því að hann hafi verið að skjóta undan fjármunum til að koma sér hjá greiðslu skulda. Magnús segir að fréttin sé ósönn enda hafi hann aldrei átt fé á reikningi í vörslu Straums banka. Magnús hafi heldur ekki verið í forsvari fyrir félög sem hafi átt fjármuni í vörslu bankans. Því sé fréttin með öllu tilhæfulaus, röng og meiðandi. Efni hennar hafi aldrei verið borið undir Magnús.

Magnús sendi frá sér fréttatilkynningu 28. júlí þar sem hann lýsti frétt Stöðvar 2 ranga hvað sig snerti og óskaði eftir afsökunarbeiðni. Sú afsökunarbeiðni hefur ekki komið fram og fréttin ekki dregin til baka.

Lögmaður Magnúsar er Benedikt Ólafsson hrl. Áður hefur komið fram að Björgólfsfeðgar og Karl Wernersson hafa stefnt vegna sömu fréttar.