Samningaviðræður um skiptingu sameiginlegs makrílkvóta hefst í Bretlandi í dag. Eins og kunnugt er hafa Íslendingar og Færeyingar átt í deilum við Evrópusambandið og Noreg um skiptingu kvótans í um fimm ár.

Samningaviðræðurnar fara fram í Bretlandi. Fram kom í norskum fjölmiðlum í síðustu viku að Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, hygðist gera Íslendingum og Færeyingum tilboð sem fæli í sér að hvor um sig myndi fá um 12% af heildarkvótanum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hefur ekki viljað tjá sig um málið og mun væntanlega ekki gera það fyrr en formlega hefur verið gert grein fyrir tilboðinu.

Hjá LÍÚ hafa menn heldur ekki viljað tjá sig efnislega um það en Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri hefur sagt að það væri mikilvægt að ná samningum um skiptingu kvótans.