Marel hf. hefur sett sér það markmið að vera í fararbroddi í þróun og hagnýtingu róbótatækni í matvælaiðnaði. Fyrirtækið stendur nú á ný á tímamótum í þróun og framleiðslu hátæknibúnaðar fyrir matvælaiðnað. Er því hafin þróun á tækni sem miðar að því að róbótar geti pakkað kjöt- og fiskafurðum án þess að mannshöndin komi þar nærri.

Voru ýmsar nýjungar fyrirtækisins á þessu sviði kynntar fyrir fréttamönnum í morgun. Þar er um að ræða lausnir sem nýtast í fisk- og kjötiðnaði og eru að hluta þegar komnar í notkun hjá fyrirtækjum eins og Samherja á Dalvík.

Til þessa hafa róbótar einkum verið notaðir þar sem fengist er við einsleita hluti og vinnsluumhverfi er tiltölulega þurrt. Þróunarverkefni Marels felst í því að nýta róbóta til að meðhöndla matvæli, þó svo þau séu bæði breytileg í lögun og viðkvæm og vinnsla fari fram við aðstæður þar sem sérstaklega þarf að huga að bleytu og þrifum.

?Vinna að lausnum sem byggjast á róbótatækni hófst hjá okkur á síðasta ári og var markmiðið að hanna og þróa búnað sem leggur matvæli í umbúðir með sjálfvirkum hætti,? segir Hörður Arnarson, forstjóri Marel.