Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,3% í ríflega 4 milljarða króna veltu í Kauphöllinni í dag. Hlutabréf níu félaga á aðalmarkaðnum féllu um meira en 1% í viðskiptum dagsins.

Hlutabréf Marels lækkuðu mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 3% í 600 milljóna króna viðskiptum. Gengi Marels stendur nú í 456 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í febrúar 2019. Gengi Marels hefur lækkað um meira en helming á ársgrundvelli.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 0,6% í 750 milljóna viðskiptum. Gengi Arion stendur nú í 160,5 krónum og hefur ekki verið lægra síðan í byrjun júlí síðastliðnum.

Hlutabréf Ölgerðarinnar hækkuðu um 2,4% í dag en félagið sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun um eittleytið í dag. Félagið færði upp afkomuspá fyrir yfirstandandi fjárhagsár um hálfan milljarð. Gengi Ölgerðarinnar stendur nú í 10,85 krónum.