Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,5% í 2,4 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Fimmtán félög voru rauð og eitt grænt í viðskiptum dagsins.

Marel leiddi lækkanir en gengi félagsins féll um 3% í 575 milljóna viðskiptum. Gengi Marels stendur nú í 524 krónum á hlut. Auk Marels lækkaði Sjóvá og Ölgerðin um meira en 2%, þó í talsvart minni veltu.

Alvotech hækkað um 21,6% á tveimur vikum

Á First North-markaðnum var 290 milljóna króna velta með hlutabréf Alvotech sem hækkuðu um 1,3%. Gengi Alvotech stendur í 956 krónum á hlut eftir 21,6% hækkun á síðustu tveimur vikum eða frá því að félagið náði sínu lægsta dagslokagengi í 786 krónum þann 22. nóvember.

Tilkynnt var í dag um að hlutabréf Alvotech verði tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar á fimmtudaginn. Bréfin verða því tekin úr viðskiptum á First North-markaðnum eftir lokun markaða á morgun.