Hlutabréf Alvotech verða tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar á fimmtudaginn næsta, 8. desember, að því er kemur fram í tilkynningu Nasdaq Iceland. Bréf Alvotech verða því tekin úr viðskiptum á First North markaðnum eftir lokun markaða á miðvikudaginn.

Alvotech hefur birt skráningarlýsingu og samantekt skráningarlýsingar á íslensku í tengslum við skráningu félagsins á aðalmarkaðinn.

Stjórn Alvotech samþykkti áætlun um að undirbúa skráningu á aðalmarkaðinn um miðjan ágúst síðastliðinn. Félagið tilkynnti svo á miðvikudaginn í síðustu viku að það hefði lagt inn umsókn til Nasdaq Iceland.

Með skráningu á aðalmarkaðinn vill Alvotech ná til breiðari hóps fjárfesta og eiga möguleika á að vera meðal skráðra fyrirtækja hér á landi sem komast inn í nokkrar nýmarkaðsvísitölur hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell.

Alvotech var tvískráð í Nasdaq kauphöllina í New York og First North markaðinn á Íslandi í júní síðastliðnum.

Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech, sagði við Viðskiptablaðið í desember 2021, þegar áform um tvískráningu voru kynnt, að tæknilega hafi verið of flókið að skrá fyrirtækið á tvo aðalmarkaði á sama tíma og því var First North-markaðurinn valinn.