*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 20. janúar 2017 10:40

Margt óeðlilegt við rekstur borgarinnar

Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg, segir það vitlaust að borgin reki sína eigin malbikunarstöð.

Pétur Gunnarsson
Halldór Halldórsson, er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Haraldur Guðjónsson

Halldór Halldórsson og Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, lögðu fram að umhverfis- og skipulagsráð samþykki áskorun til borgarráðs að Malbikunarstöðin Höfði sem er í eigu borgarinnar verði seld.

Halldór segir í samtali við Viðskiptablaðið, að hann og Hildur hafi lagt fram áskorunina til að rifja þetta mál upp en að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi lagt þetta fram sem tillögu áður.

Viðskiptaráð Íslands gerði stöðu malbikunarstöðvarinnar Höfða að umfjöllunarefni sínu nýlega þar sem að ráðið benti á að markaðshlutdeild Höfða, sem er í fullri eigu Reykjavíkurborgar, sé 73% í útboðum Reykjavíkurborgar á árunum 2008 til 2016.

„Það varð til þess að við ákváðum, enn og aftur að fá umræðu um það í borgarráði og mögulega í framhaldinu í borgarstjórn, hversu vitlaust það sé að borgin sé að reka sína eigin malbikunarstöð. Það er margt við borgarrekstur sem er ekki eðlilegt. Þetta er mjög gott dæmi, annað dæmi er það að borgin sé alltof mikið með eigin tæki og of lítið að bjóða út verkefni,“ segir Halldór.

Hann bætir við að þetta eigi einnig við um hreinsun gatna og snjómokstur. „Svo ég tala ekki einu sinni um sorphirði,“ segir Halldór jafnframt. Hann segir borgina ekki nægilega dugleg að nýta sér kosti útboða.