„Við höfum stækkað tiltölulega hratt síðustu tíu-fimmtán árin,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa. „Við rekum þrjú vörumerki í grunninn. Nettó er okkar lágvöruverslun. Þær eru sextán í dag. Við erum að innleiða nýtt konsept, Kjörbúðina, sem er aðallega á landsbyggðinni. Þær verslanir eru fjórtán og verða tuttugu í upphafi næsta árs.

Þriðja konseptið er Krambúðin. Við keyptum Krambúðina á Skólavörðustíg en hún hafði ekki þróast í takt við tíðarandann og þá breytingu sem var að verða á Skólavörðustíginn. Hún er í annan þráðinn þægindaverslun með langan opnunartíma en er með allar helstu heimilisvörur á sanngjörnu verði. Krambúðirnar verða tíu, víða um landið.“

Ísland skammt á veg komið

Samkaup vöktu nýlega athygli þegar greint var frá samstarfi Nettó og netverslunarinnar aha. is. Þar býðst fólki að gera innkaupin á netinu og fá vörurnar ýmist sendar heim eða sækja þær í Nettó í Mjóddinni.

„Ég man eftir því fyrir svona tíu árum þegar við komum heim af smásöluráðstefnum úti í heimi með hjartað í buxunum af því að þá var línan sú að ef þú værir ekki á netinu gætirðu alveg eins lokað í næstu viku. Við erum ennþá með opið og erum bara ný­ komin á netið. Núna er umræðan og þróunin að verða þannig að þetta snýst ekki um að vera bara á netinu eða bara með verslun heldur hver verður góður í að blanda þessu tvennu saman. Af hverju er Amazon til dæmis að kaupa Whole Foods? Það er nákvæmlega út af þessu – til að samþætta tæknina og verslunarrekstur. Þetta er það sem við erum að gera,“ segir Gunnar Egill.

Fólk virðist á suman hátt hegða sér öðruvísi þegar það verslar á netinu. „Það verslar á öðrum tímum en við erum vön. Frá kannski tólf til þrjú á daginn er mikið pantað á netinu. Þegar þú rekur hefðbundna verslun er tíminn frá fjögur til sjö háannatími. En svo milli átta og níu koma aftur toppar í netverslun. Konur virð­ ast líka versla meira en karlar og fólk kaupir meira í einu á netinu en þegar það fer út í búð. Fólk nýtir sér bæði það að sækja og fá sent. Margir kippa matnum bara með á leiðinni heim,“ en einnig er hægt að fá vörurnar sendar heim samdægurs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .