Medis, dótturfélag Actavis, og samstarfsaðilar settu 37,8 milljónir af Telmisartan HCT töflum á markað í 8 Evrópulöndum þann 12. desember síðastliðinn. Um það leyti rann sérleyfi frumlyfsins út.

Þróun lyfsins og skráning fór að nær öllu leyti fram á Íslandi. Það tók svo verksmiðju Actavis á Möltu alls 10 vikur að slá og pakka þeim 37,8 milljón töflum sem fóru á markað. Þróunarferli lyfsins Telmisartan HCT hófst á Íslandi árið 2006, en skráningarvinna hófst á Íslandi vorið 2012.

Samheitalyfið Telmisartan HCT er blóðþrýstingslyf sem samsvarar frumlyfi Boehringer Ingelheim, MicardisPlus®. Taflan flytur bæði lyfin telmisartan og hýdróklórtíazíð og vinnur þannig á tvo vegu í líkamanum við meðhöndlun á of háum blóðþrýstingi.