*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 29. júlí 2019 15:14

Mega ekki hafa gerst brotlegir

Frumvarp um leigubifreiðar tók breytingum í kjölfar samráðs. Skýrar er nú að opnað sé á farveitur á borð við Uber.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Nokkrar breytingar urðu á frumvarpi til nýrra heildarlaga um leigubifreiðar í kjölfar samráðs við samtök og almenning. Meðal annars er kveðið á með ríkari hætti hvaða skilyrði leigubílsstjóri þarf að uppfylla til að mega aka leigubifreið og skýrar er opnað á rafrænar lausnir.

Frumvarpsdrögin voru kynnt í maí og sendu tólf aðilar inn umsögn. Í nýju drögunum hefur verið tekið tillit til umsagnanna að einhverju leyti. Frumvarpið nú inniheldur breytingarnar en samgönguráðuneytið tók ákvörðun um að kynna þær á ný til samráðs áður en frumvarpið verður lagt fyrir Alþingi í haust.

Meðal breytinga sem gerðar voru er að leigubifreiðastjóri hafi ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi sem gefur tilefni til að efast um hæfni hans til að starfa sem leigubílsstjóri. Hafi brot verið smávægilegt, eða meira en fimm ár liðið frá því, sé þó heimilt að veita leyfi. Sé á móti um stórfellt brot eða kynferðisbrot að ræða skal ekki veita starfsleyfi fyrr en að tíu árum liðnum.

Í drögunum er enn gert ráð fyrir þeirri aðalreglu að gjaldmælar skuli vera í öllum leigubifreiðum. Undantekning frá því er ef samið er um verð fyrir fram. Ber bílstjóri þá sönnunarbyrðina fyrir því að samningur hafi komist á. Gjaldskrá skal ávallt vera aðgengileg.

Þá er kveðið á um að rekstrarleyfishafi skuli halda rafræna skrá yfir upphafs- og endastöð hverrar seldrar ferðar og yfir staðsetningu á meðan ferðinni stendur. Þær upplýsingar skulu vera aðgengilegar í sextíu daga frá því að ferð var ekin.

Ákvæði um fjöldatakmarkanir og stöðvaskyldu rötuðu ekki inn í drögin á ný þrátt fyrir athugasemdir fyrirtækja í leigubílarekstri þar um. Fyrrgreind undanþága frá aðalreglunni um gjaldmæli opnar síðan á að farveitur, á borð við Uber, Lyft eða sambærileg fyrirtæki, geti starfað hér á landi.

Unnt er að senda athugasemdir um síðari drögin til 12. ágúst næstkomandi. Er það gert í gegnum Samráðsgátt stjórnvalda.

Stikkorð: Uber