Stjórn fjárfestingafélagsins Meiðs ehf. hefur samþykkt að kaupa hlutabréf í VÍS fyrir 105 milljónir króna að nafnvirði. Þetta svarar til hlutafjáraukningar sem hluthafar VÍS samþykktu nýlega í tilefni af því að félagið hefur að undanförnu fjárfest í fyrirtækjum sem falla vel að meginstarfssemi og stefnu þess á sviði trygginga-, fjármála- og öryggisþjónustu.

Meiður eignast rúmlega 16% eignarhluta í VÍS og stefnir að því að eignast yfir 20% í félaginu.

Stærstu hluthafar í VÍS eftir kaup Meiðs eru:

Eignarhaldsfélagið Hesteyri ehf. 25,8%
Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar svf. 25,4%
Kaupþing Búnaðarbanki hf. 24,7%
Meiður ehf. 16,1%
Eignarhaldsfélagið Andvaka gt. 4,4%
Gætur ehf. 3,5%

Meiður er fjárfestingafélag í eigu Bakkabræðra holding, KB banka og nokkurra sparisjóða. Stjórn Meiðs ákvað á síðasta ári að félagið yrði virkt í fjárfestingum í arðbærum fyrirtækjum og verkefnum. Kaupin á hlut í VÍS eru í samræmi við þá stefnumörkun.

"VÍS er traust fyrirtæki með mikla framtíðarmöguleika og við væntum mikils af þessari fjárfestingu," segir Erlendur Hjaltason, forstjóri Meiðs. í tilkynningu vegna kaupanna.

"Með hlutafjáraukningu, og því að Meiður eignast hlut í VÍS, eflist félagið og vex og verður jafnframt hæfara til þess að taka þátt í fjárfestingum," segir Finnur Ingólfsson, forstjóri VÍS, í sömu tilkynningu.