*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 17. maí 2021 19:15

Mesta hækkun fasteignaverðs frá 2007

Fasteignaverð hefur ekki hækkað meira í einum mánuði í 14 ár samkvæmt leiðréttum tölum frá Þjóðskrá sem gerði mistök við upphaflega vinnslu gagnanna.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 3,3% í marsmánuði sem er það mesta á einum mánuði frá 2007. Þetta kemur fram í leiðréttum tölum frá Þjóðskrá Íslands.

Í frétt á vef Þjóðskrár segir að mistök hafi verið gerð við vinnslu talnanna þegar þær voru fyrst birtar í apríl en þá var talið að hækkun fasteignaverðs hafi numið 1,6% milli mánaða sem þó var sagt mest hækkun fasteignaverðs í einum mánuði frá maí 2017.

Sjá einnig: Bullandi seljendamarkaður

Eftir leiðréttinguna nemur hækkun vísitölunnar síðustu 3 mánuði 4%, en 6,5% síðustu 6 mánuði og 10,7% síðustu 12 mánuði. síðastliðna 6 mánuði hækkaði hún um 6,5% og síðastliðna 12 mánuði hækkaði hún um 10,7%. Hækkunin síðustu 12 mánuði er sú mesta síðan í janúar 2018. Vísitalan fyrir aprílmánuð verður birt á morgun.

Sjá einnig: Ógöngur á fasteignamarkaði?

Uppfærsla vísitölunnar kemur til viðbótar við fleiri vísbendingar um að fasteignamarkaðurinn sé að hitna verulega þó hagfræðingar takist á um hvort bæta þurfi verulega í byggingar íbúðarhúsnæðis eða að verktökum takist að anna eftirspurn.