Drög að samkomulagi um aukið frjálsræði í flugi yfir Atlantsála (e. Open Skies Agreement) náðist á milli Evrópusambandsins (ESB) og bandarískra yfirvalda síðastliðinn föstudag. Samkomulaginu er ætlað að stuðla að aukinni samkeppni á flugleiðum milli Bandaríkjanna og Evrópu og auðvelda samruna flugfélaga. Drögin eru sögð marka tímamót og lýsir John Byerly, aðstoðarsamgönguráðherra Bandaríkjanna, þeim sem "mikilvægasta loftferðasamningi nútímasögu." Hinsvegar eru ekki allir á þeirri skoðun og róa forráðamenn bresku flugfélaganna British Airlines (BA) og Virgin Airlines, sem eru tvö af þeim stærstu í Evrópu, lífróður til þess að koma í veg fyrir að samkomulagið gangi í gildi.

Samningsdrögin fela það í sér að evrópskum flugfélögum verður heimilt að fljúga til hvaða flugvallar sem er í Bandaríkjunum, frá hvaða stað sem er í Evrópu. Og á móti mun það sama gilda fyrir bandarísk flugfélög, sem samkvæmt drögunum mega fljúga frjálst innan aðildarríkja ESB. Samkomulagið veitir hinsvegar ekki evrópskum flugfélögum aðgang að innanlandsmarkaði í Bandaríkjunum. Þessi breyting myndi hafa sérstaklega mikil áhrif fyrir flugsamgöngur á Heathrow flugvellinum í London en sérfræðingar telja að samkeppnin myndi grafa undan sterkri stöðu BA. Markaðir hafa endurspeglað þá skoðun en gengi hlutabréfa í BA hafa fallið frá því að tilkynnt var um drögin.

Samkomulagið felur ekki heldur í sér breytingar á bandarískum lögum sem takmarka erlent eignarhald á flugfélögum. Erlendir fjárfestar mega ekki fara með meira en 25% atkvæða í þarlendum flugfélögum en samkomulagið felur í sér að þeir megi eiga allt að fimmtíu prósentum hlutabréfa án þess að þeim fylgi samsvarandi atkvæðaréttur. Talið er að Evrópumenn hafi ekki beitt sér fyrir því að Bandaríkjamenn geri breytingar á reglum um eignarhald erlendra fjárfesta til þess að koma í veg fyrir að Bandaríkjaþing beiti sér gegn staðfestingu samkomulagsins.

Hingað til hefur flugsamgöngum yfir Atlantshafið verið stjórnað með flóknu regluverki sem byggist á fjölmörgum tvíhliða samningum milli stjórnvalda í Washington og einstakra aðildarríkja ESB. Þessi skipan hefur hindrað sameiningu meðal evrópskra flugfélaga: Þegar Air France keypti KLM og til varð Air France-KLM flugfélagið þá fékk Air France ekki sjálfkrafa þau réttindi sem hollenska félagið hafði öðlast á hinum bandaríska markaði. Með hinum nýja samningi ESB og Bandaríkjanna mun þetta breytast. Telja ráðmenn í Evrópu að samkomulagið muni liðka töluvert fyrir sameiningu flugfélaga þvert á landamæri aðildarríkja ESB.

Heathrow-flugvöllur í London hefur verið ein helsta samgönguæðin í flugsamgöngum yfir Atlantshafið. Í dag hafa aðeins fjögur flugfélög leyfi til þess að fljúga þaðan til Bandaríkjanna. Það eru British Airways, Virgin Atlantic Airways, American Airlines og United Airlines. Með samningnum myndi þetta breytast og öll flugfélög í Evrópu og Bandaríkjunum fengju leyfi til þess nota Heathrow flugvöll fyrir áætlunarleiðir sínar til Bandaríkjanna. Afleiðingarnar af þessari breytingu yrðu aukin samkeppni sem aftur ætti að skila sér í lækkuðu miðaverði fyrir flugfarþega, að mati ráðamanna ESB. Það er ekki síst vegna þessa þáttar samkomulagsins að forráðamenn bresku flugfélaganna eru því andvígir: Það grefur undan stöðu þeirra á sama tíma og þau fá ekki aðgengi að bandaríska innanlandsmarkaðinum og ekki svigrúm til þess að styrkja stöðu sína á honum með yfirtöku á þarlendum flugfélögum.


Framkvæmdastjórn ESB telur að í kjölfar hins aukna frjálsræðis á flugmörkuðum beggja vegna Atlantsála sem samningurinn myndi hafa í för með sér, mætti búast við því að flugfarþegum fjölgi um 26 milljónir á næstu fimm árum, en um þessar mundir fljúga fimmtíu milljónir manna á milli Bandaríkjanna og Evrópu á ári hverju. Ennfremur hefur framkvæmdastjórn ESB reiknað það út að um áttatíu þúsund störf gætu skapast í flugiðnaðinum með því að fjarlægja þær markaðshindranir sem samkomulagið gerir ráð fyrir.

Þrátt fyrir að einhver óvissa ríki um hvort að samkomulagið nái fram að ganga hafa markaðir valið þau flugfélög sem kunna að hagnast á því og tapa. Sérfræðingar hjá Citigroup telja að það myndi mikil sóknarfæri fyrir flugfélög eins og Lufthansa og lággjaldaflugfélagið easyJet. Á sama tíma telja þeir að flugfélögin sem hafa einokun á flugi til Bandaríkjanna frá Heathrow komi til með að tapa mikið á því.

Tillagan verður lögð fyrir ráðherraráð ESB þann 22. mars næstkomandi og vonast ráðamenn sambandsins að hægt verði að innsigla það á leiðtogafundi ESB og Bandaríkjanna í lok næsta mánaðar. Ljóst er að þungavigtarmenn innan sambandsins muni beita sér mjög fyrir framgöngu málsins. Þjóðverjar fara nú forsæti í ESB og margir líta á samkomulagið sem hornstein þeirrar stefnu Angelu Merkel kanslara að blása nýju lífi í Atlantshafstengslin í kjölfar þeirrar spennu sem hefur ríkt vegna innrásarinnar í Írak.

Jacques Barot, sem fer með samgöngumál innan framkvæmdastjórnarinnar, hefur lýst því yfir að æskilegt væri að öll aðildarríki sambandsins samþykki samkomulagið. Slíkt er að vísu ekki nauðsynlegt þar sem að það getur tekið gildi með kosningu í ráðherraráðinu. Breska dagblaðið The Daily Telegraph telur að samgönguráðherra landsins, Douglas Alexander, muni berjast fyrir málstað BA og Virgin á vettvangi ESB. Hinsvegar virðast bresk stjórnvöld vera einangruð í afstöðu sinni. Þrátt fyrir að þýsk stjórnvöld hafi áður sett sig á móti sambærilegum samningi þá er talið líklegt að þau mæli fyrir honum núna þar sem að þau leiða starf ESB um þessar mundir. Stjórnvöld á Spáni og Írlandi eru sérlega áhugasöm um samninginn en hann er talinn veita Iberia-flugfélaginu og Air Lingus mikil sóknarfæri.

Bandarísk stjórnvöld hafa nú þegar sent frá sér varúðarorð samþykki ráðherraráðið ekki samninginn. Samgönguyfirvöld þar í landi hafa látið í veðri vaka að slíkt gæti orðið til málaferla auk þess sem að núverandi loftferðasamningar bandarískra stjórnvalda við einstaka aðildarríki ESB færu í uppnám.