Hlutabréf lækkuðu talsvert á mörkuðum í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki auk orkufélaga sem leiddu lækkanir dagsins.

Þá höfðu orð Gordon Brown, forsætisráðherra Bretland og Mervin King, bankastjóra Englandsbanka um hætt væri við að samdráttur væri framundan í Bretlandi mjög neikvæð áhrif á markaði að sögn Reuters.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 5,5% og hefur nú lækkað um 18% það sem af er þessum mánuði og ef fer sem horfir getur þetta orðið versti mánuður hennar frá upphafi.

Eins og fyrr segir lækkuðu bankar og fjármálafyrirtæki nokkuð. Þannig lækkaði Barclays um 7,4%, Roayl Bank of Scotland um 11,9% og HBOS um 8% svo dæmi séu tekin.

Orku- og olíufélögin BP, Total og Shell lækkuðu öll um rétt rúm 5%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 4,5%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 5,3% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 4,5%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 5,1% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 4,2%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 5,6% en hafði um tíma lækkað um tæp 7%.

Í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 3,7% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 5,8%.