Hagnaður sjónvarps- og raftækjaframleiðandans Philips Electronics dróst saman um 2,8% á fyrsta ársfjórðungi og var um 175 milljón Bandríkjadalir eða það sem samsvarar 12,9 milljörðum íslenskra króna.

Sala á sjónvarpstækjum frá Philips hefur dregist verulega saman síðustu misseri og hefur Reuters fréttastofan það eftir viðmælanda tengdum Philips að árangur fyrsta ársfjórðungs sé óásættanlegur.

Heildarsala fyrirtækisins jókst þó um 1% en það voru helst heilsuvörur félagsins auk annarra minni rafmagnstækja sem héldu sölunni uppi. Sala í Norður Ameríku lækkaði þó um 9%.

„Það er ódýrara að framleiða sjónvörp heldur en rakvélar og önnur minni tæki,“ hefur Reuters eftir ónafngreindum heimildarmanni. „Þess vegna minnkar hagnaðurinn eins og við sjáum nú.“

Þá greinir Reuters frá því að Philips hafi nýlega gefið það út að félagið myndi hætta að framleiða sjónvörp fyrir bandaríkjamarkað.

Hlutabréf Philips hafa lækkað um 2% það sem af er degi í Evrópu.