*

laugardagur, 8. maí 2021
Fólk 16. febrúar 2020 19:01

„Mjölnir mitt geðlyf“

Kristján Hjálmarsson, nýr framkvæmdastjóri H:N Markaðssamskipta, segir víkingaþrekið bjarga sér frá því að brenna út.

Höskuldur Marselíusarson
Nýr framkvæmdastjóri H:N Markaðssamskipta, Kristján Hjálmarsson, segir það að hamast reglulega með góðum hóp í Víkingaþreki Mjölnis hafi oftar en einu sinni bjargað sér frá því að brenna út í starfi.
Aðsend mynd

„Ég er að taka við á góðum tíma. Stofan hefur verið að stækka jafnt og þétt síðustu ár en það sem breytist aðallega hjá mér er að ég fer að sinna stjórnun og starfsmannamálum í meira mæli en áður. Ég er svo heppinn að inn á stofuna hefur verið að koma margt ungt og klárt fólk sem heldur mér á tánum með góðum hugmyndum sem þarf að vinna úr og leiða," segir Kristján Hjálmarsson sem tekið hefur við framkvæmdastjórn H:N Markaðssamskipta af eigandanum Ingva Jökli Logasyni. Hann verður þó áfram í starfsteymi stofunnar.

„Jafnframt gefst mér nú tækifæri til að sinna stærri almannatengslaverkefnum betur. Auglýsingastofur standa frammi fyrir miklum áskorunum vegna þeirra hræringa sem eru að eiga sér stað í fjölmiðlaheiminum en í þeim felst einnig fjöldi tækifæra. Við erum til dæmis fyrsta stofan hér á landi til að nýta sýndarveruleika og viðbættan veruleika í auglýsingar."

Kristján segist hafa ákveðið strax á unglingsaldri að vinna við fjölmiðla. „Ég var plötusnúður í grunnskóla, rak litla útvarpsstöð í félagsmiðstöð sem ég vann í, var í ritnefndum í Flensborg og stofnaði heimasíðuna 01.is með félögum mínum í kringum 2000 en fékk síðan starf á fyrstu ritstjórn Fréttablaðsins árið 2001."

Kristján segir það hafa verið mikinn skóla að vinna á Fréttablaðinu en hann vann þar í tæp fimmtán ár, þar af sjö sem fréttastjóri. Hann ákvað svo að stökkva yfir til frænda síns, Ingva Jökuls, sem hafði lengi reynt að fá hann til H:N Markaðssamskipta.

„Undir það síðasta var vinnan alveg búin að gleypa mig og ég fann að það var kominn tími á breytingar hjá mér svo ég ákvaða að gangast hinum illu markaðsöflum á hönd," segir Kristján og hlær.

„Ótrúlegt en satt þá eru þetta að mörgu leyti mjög líkir geirar, meðal annars skemmtilega klikkað fólk sem starfar í þeim báðum. Það sem maður lærir í fjölmiðlum er að vinna hratt og undir gríðarlega miklu álagi en það hefur enginn gott af því að vinna þannig til lengdar. Álagið og hraðinn á auglýsingastofum getur vissulega verið mikill en það tók mig samt smá tíma að venjast öðru og kannski aðeins eðlilegra tempói þar."

Kristján er giftur Veru Einarsdóttur, upplýsingafulltrúa í félagsmálaráðuneytinu, og eiga þau þrjú börn, 25, 18 og 2 ára, og eitt barnabarn.

„Ég reyni að verja sem mestum tíma með fjölskyldunni þegar ég er ekki í vinnunni. Þá hef ég verið í Víkingaþrekinu í Mjölni í meira en áratug. Það hefur sennilega bjargað mér oftar en einu sinni frá því að brenna út. Þar fæ ég þá útrás sem ég þarf enda einstakur hópur fólks sem stendur að þrekinu og æfir þar. Ég myndi segja að Mjölnir væri mitt geðlyf."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér